Skipperinn með þrennu!!

20 May 2014 by Steinar Kaldal


Tungur tók sinn annan sigur í jafnmörgum leikjum í sumar og hafi það farið framhjá fylgismönnum liðsins þá gerði keisarinn sér lítið fyrir og smellti í myndarlegt hattrick. Lengi vel leit þó út fyrir að leiknum yrði frestað þar sem andstæðingar Tungs, vel meðvitaðir um að Tungur leggur línurnar í knattspyrnutískunni, ákváðu að klæðast nákvæmlega eins búningum. Fjölmargir áhorfendur leiksins mönuðu Tunga í að spila bera að ofan, vitandi að þá fengju þeir meira fyrir peninginn, en dómari leiksins taldi það af og frá í ljósi langtímaáhrifa sem það gæti haft á viðstadda. Þess í stað var brugðið á það ráð að fá að láni hlýraboli frá 10. flokki karla/kvenna? Vel þrýstnir hófu því Tungir leikinn af yfirvegun og mátu leik andstæðinga sinna áður en hafist var handa við að raða inn mörkum (þrjú þeirra skoruð af kanslaranum). Fyrsta markið átti þó undirritaður og var það GULL af marki ala Koscielny-FA-Cup-Final-2014. Tungir komust svo í 2-0 þegar Foringinn setti sitt fyrsta mark (af þremur) áður en fyrri hálfleik lauk. Heilt yfir var liðið að spila vel saman. Atli Dungal greip vel inni í en þurfti ekki að taka á honum stóra sínum fyrr en í síðari hálfleik þegar hann átti nokkrar glæsilegar vörslur. Undirritaður hefur ekki séð mann jafnfljótan niður síðan Árni Þór Sigurðsson fékk hænuegg í höfuðið við þingsetningu á sínum tíma. Gummi og Smári stigu ekki feilspor í vörninni, spiluðu boltanum vel fram og stýrðu varnarhreyfingum undirritaðs eins og þaulvanir brúðumeistarar. Fram á við skapaði Bjarki usla með eitruðum sendingum og sífelldum hlaupum í eyður og Gumbo og Danni Hinn Þindarlausi stríddu varnarmönnum andstæðinganna með tæknitilþrifum og sífelldum irriteringum. Þá Dóri renndi sér hægri vinstri í allt sem var í 3 metra radíus. Uppskar hann gult spjald fyrir það en jafnframt urðu tæklingar hans til þess að andstæðingarnir hikuðu þegar þeir nálguðust kauða. Eitthvað er búið að minnast á þátt Fuhrer-ins sem nýtti reynslu sína og útsjónarsemi til að finna menn í opnum svæðum og setja mörk (þrjú). Þegar horft er yfir leikinn má telja til fjögur highlights. í fyrsta lagi hugguleg mörk, númer 3 og 4, Hins Þindarlausa og liðsstjórans. Í öðru lagi gríðarlega fallegt mark Morgans-ins sem hófst með glæsilegri sendingu “man ekki hvers” til Gumbo sem stóð ofarlega í teignum, tók boltann fallega niður, skýldi honum fyrir varnarmanni og lagði hann svo snyrtilega fyrir fyrirliðann sem kom á hægum en ákveðnum hraða og smellti honum hnitmiðað, utanfótar í fjærhornið. Dregnar saman í eitt highlight eru svo áðurnefndar markvörslur Atla og fjórða highlight-ið átti svo Gumbo skuldlaust þegar hann sýndi gríðarlega útsjónarsemi þegar Tungir voru orðnir þungir og hreinsaði boltann, sem var þá þegar hálfur farinn útaf við hornfána andstæðinganna, langleiðina upp að Dómkirkju. Gult spjald var niðurstaðan en Tungir gátu dregið sér nauðsynlegt súrefni til að klára leikinn. Fjaraði leikurinn svo út og lokatölurnar, 5-2, verðskuldaðar.

ps. tímasetningar marka í þessum pistli gætu reynst rangar í ljósi þess að fókus pistlahöfundur fór á tíðum í rökræður við dómara leiksins sem og andstæðingana vegna síendurtekinna nýrnahögga sem hituðu upp í honum blóðið.