Illa farið með uppana úr Stokkhólmi
22 May 2014 by Daniel Kristinsson
Algjört sólarlandaveður var í Korpunni á miðvikudaginn þegar leikar hófust, 25 stig og heiðskýrt. Þetta olli ísbjörnunum úr Atlantshafinu nokkrum áhyggjum enda óvanir slíku veðri sem kunna best við sig í slagviðri helst með smá dass af salti.
Það var þó léttir þegar kom í ljós að mótherjar dagsins voru pabbastrákar frá Stokkhólmi sem eru engu vanari sólarljósinu en ísbirnirnir. Þeir kjósa enda helst að hella niður kampavíni í myrkum bakherbergjum frekar en að baða sig í því mikla sólarljósi sem Svíþjóð hefur upp bjóða.
Pabbar leikmanna Vatos Locos hafa greinilega dælt miklu fjármagni í liðið og var tveimur Spánverjum stillt upp á sitthvorum kantinum. Af tilþrifum Spánverjanna að dæma er þó ljóst að þeir keyptu köttinn í sekknum og líklegast verið plataðir af óheiðarleigum umboðsmönnum með góðum youtube myndböndum. En nóg um það.
Leikurinn hófst með mikilli baráttu og í þetta skipti voru það óheiðarlegir Svíar sem sáu um dólgslætin meðan liðsmenn Tungs Knivs höguðu sér með mikilli prúðmennsku og létu ekkert á sig fá. Það var á um það bil 10 mínutu þegar Guðmundur aka Gaukur Beckham átti glæsileg fyrirgjöf sem sigldi framhjá sofandi varnarmönnum Vatos Locos og beint á hausinn á Daníel sem kláraði færið líkt og um Miroslav Klose væri að ræða. Stuttu seinna var svo Svíinn í liði Tungs, Bjarkmann, tekinn harkalega niður af samlanda sínum stuttu fyrir utan teig. Þrátt fyrir að kenna sér enn eymsla gerði Bjarkmann sér lítið fyrir og tók sjálfur aukaspyrnuna og negldi boltanum glæsilega í markið án þess að Vatos kæmu vörnum við. Eftir að þetta mætti segja að leikmenn Vatos hafi áttað sig á því að fantaskapur þeirra myndi duga skammt og mikið vonleysi lagðist yfir þeirra leik. Í lok hálfleiksins náði svo hinn dansk ættaði Ísleifs að koma Tungum í 3-0 eftir laglega skyndisókn með snyrtilegri lagningu í hægra hornið.
Seinni hálfleikurinn var svo í algjörlega í eigu Tungs Knivs fyrir utan nokkur góð færi sem Vatos fengu en Dungalinn tók það upp á sitt einsdæmi að passa að markið yrði hreint með nokkrum ansi laglegum vörslum. Það var meðal annars orðrómur meðal áhorfenda (eintala) leiksins að hér væri endurfæddur kötturinn Njáll slík voru viðbrögðin og liðlegheitin. Það var svo Kaldal sem setti síðasta markið sem var ekki síðra en markið á móti Gargnäs. Greinilegt er að þarna er maður sem er jafnvígur upp við markið og körfuna.
Leiknum lauk skömmu síðar og nýr fyrirliði Tungs, Bjarkmann, þakkaði Vatos Locos fyrir góðan leik á sinni ylhýru sænsku og sagði þeim í leiðinni að þeir væru aumingjar.
Það er svo alveg ljóst að Knivurinn hefur aldrei verið þyngri en einmitt núna með 9 stig í 3 leikjum og markatöluna 11-3.
Þessi knivur á að vera tungur!!!!